Hrognafylling loðnunnar komin í 14%

Deila:

Uppsjávarskipið Börkur NK kom til Neskaupstaðar í nótt með tæplega 1.000 tonn af loðnu sem fengust á um sex klukkustundum á miðunum undan suðausturlandi. Í viðtali á vef Síldarvinnslunnar segir Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, að stutt sé í að hægt verði að frysta loðnu fyrir Japansmarkað.
„Við fengum aflann í þremur köstum vestan við Hrollaugseyjar. Þarna var töluvert að sjá af loðnu og ég held að veiðin hjá skipunum sem þarna voru hafi almennt verið góð. Það er 40% kelling í aflanum og hrognafyllingin er um 14%. Farið er að frysta á Japan þegar hrognafyllingin er 15% og því er stutt í Japansloðnuna. Vonandi fæst slík loðna í næsta túr. Mér líst mjög vel á framhaldið, ekki síst vegna þess að það verður friður á miðunum næstu daga. Menn eru orðnir býsna þreyttir á brælunum sem hafa herjað á okkur að undanförnu,“ segir Hjörvar í viðtalinu.

Á meðfylgjandi mynd er Börkur NK á loðnumiðunum. Mynd: Björn Steinbekk /svn.is

Deila: