Kúnnarnir kaupa nú uppþíddan fisk sem ferskan

Deila:

Áhrifa sjómannaverkfalls sem staðið hefur í mánuð er farið að gæta hjá seljendum en það verður ábyggilega erfiðara fyrir smærri seljendur en þá stærri að glíma við eftirköstin segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International í samtali við ruv.is. Hann segir erfitt að meta áhrifin til ákveðinnar krónutölu. Það eru áhrif verkfallsins til lengri tíma sem valda honum nokkrum áhyggjum.

Iceland seafood rekur þrjár fiskréttaverksmiðjur í útlöndum og þar hafa menn þegar leitað á önnur mið og keypt hráefni sem í sumum tilfellum var fengið frá Íslandi segir Helgi. Það sé ekki alveg þannig að engan fisk sé að fá á Íslandi en það sé vissulega minna að selja. Þá reyni á að halda tryggð viðskiptavinanna.

Okkar sérstaða felst í því að við afhendum vörur 365 daga á ári. Það eru mjög fá lönd og raun ekkert land í N-Atlantshafi getur gert þetta nema við og þetta hefur verið sérstakt. Nú eru þessir viðskiptavinir að horfast í augu við það að fá ekki okkar vöru og þeir hafa farið að leita annað.

Helgi segir að vissulega missi menn markaðshlutdeild til skemmri tíma en spurningin sé fyrst og fremst hvað gerist þegar menn koma svo aftur inn á markaðina.

Okkar ferskfiskskúnnar í dag, þeir eru að kaupa uppþíddan fisk. Annað hvort norskan fisk eða rússneskan sem er seldur sem ferskur fiskur í verslunum. Við vitum jafnframt að þessi vara er ekki eins góð og íslensk vara en hins vegar er hún ódýrari og það er auðveldara að fá hana á þeim tíma sem þeir vilja fá hana.

Það verður ekki einfalt verkefni að koma þessari vöru frá. Þegar viðskiptavinir hafa vanist einhverju er ekki sjálfgefið að þeir færi sig aftur í það gamla segir Helgi. Fiskmarkaðurinn er um margt flókinn og menn gera ekki samninga til margra mánaða á föstu verði um sölu á ferskum fiski.

Það má ekki gleyma því að smærri bátar eru að veiða og við erum ennþá að selja vöru úr landi. Sú vara er bara miklu dýrari en áður og skilaboðin sem við vorum að fá bara síðast í morgun frá ákveðnum Evrópumörkuðum voru þau að menn vilji ekkert fara inn í svona takmarkað framboð á mjög háum verðum. Þeir vilja frekar bara fara aftur af stað þegar  þetta er allt komið af stað á Íslandi og verð í þeirra huga ásættanlegt.

Samkeppnin nú er fyrst og  fremst frá mörkuðum í Evrópu, þar sem víða er unnið úr hráefni sem er fyrst og fremst norskt eða rússneskt og enn ítrekar Helgi að áhyggjur manna snúist ekki síst um það hvernig ástandið verður þegar verkfall leysist.

Það verður mikið af fiski, við munum koma inn í miðja vertíð hjá Norðmönnum. Þeir eru núna seinni partinn í janúar að byrja sína vertíð sem gengur yfirleitt frá lokum janúar og fram í apríl eða maí. Þannig að þetta verða, hvað eigum við að kalla þetta, mjög athyglisverðir næstu mánuðir.

Allir óski þess að verkfallið leysist sem fyrst. Stærri fyrirtæki standi þetta af sér en það eigi ekki endilega við um alla og áhyggjur hvíli þyngst á smærri fyrirtækjum.

 

 

Deila: